Umsögn Landssamtaka íslenskra stúdenta vegna nýrra úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) 2018 - 2019

Eitt helsta baráttumál LÍS - Landssamtaka íslenskra stúdenta er að hlutverk LÍN sem félagslegur jöfnunarsjóður sé eflt og að LÍN starfi sem slíkur. Til þess að geta sinnt því hlutverki er brýnt að gætt sé að sveigjanleika og að komið sé til móts við stúdenta. Raunin er sú að þörfum stúdenta hefur ekki verið sinnt síðastliðin ár og stúdentar því þurft að sætta sig við skertan hlut. Krafa LÍS er að úr því verði bætt hið fyrsta og að stúdentum séu boðin betri kjör hjá LÍN. Þann 13. febrúar síðastliðinn birtu LÍS áherslur vegna yfirvofandi breytinga á Lánasjóðnum þar sem tekið er á lögum um LÍN og úthlutunarreglum og þeim úrbótum sem stúdentar fara fram á til þess að starfsemi LÍN sé viðhlítandi.

LÍS eru vonsvikin með nýjar úthlutunarreglur 2018 - 2019 en ekki er komið til móts við þarfir stúdenta og sitja kjör þeirra enn aftur á hakanum.  

Það er mat LÍS að breyttar úthlutunarreglur séu ekki sú kjarabót sem stúdentar þarfnast og hafa kallað eftir. Stúdentar berjast endurtekið fyrir bættum kjörum hjá LÍN en lítið sem ekkert breytist milli ára. LÍS vona og krefjast þess að hlustað verði betur á rödd stúdenta við áframhaldandi vinnu innan LÍN og í nýskipaðri verkefnastjórn um endurskoðun á lögum um LÍN, þannig að loforð um raunverulegt samráð við stúdenta verði efnt og kjör stúdenta loks bætt. Lánasjóður íslenskra námsmanna er til fyrir tilstilli stúdenta og ber því að koma til móts við þá.

Lesa má umsögnina í heild sinni hér.

 

Previous
Previous

Staða íslenskra stúdenta í alþjóðlegum samanburði: aðgengi, efnahagur og tækifæri til náms erlendis

Next
Next

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir kjörin formaður á Landsþingi LÍS