Samantekt og greiningarefni

 

Líkt og áður hefur komið fram fagna stúdentar því að nú skuli endurskoða lög um Menntasjóð námsmanna og ítrekar LÍS mikilvægi þess að lagt sé upp úr með því að sú endurskoðun verði eins ítarleg og greinargóð og fyrirliggjandi gögn gefa færi á. Í ljósi þess hve lítil reynsla er komin á núverandi kerfi telur LÍS þó rétt að það verði endurskoðað að nýju innan þriggja ára frá því að yfirvofandi endurskoðun hefur farið fram.

Aðeins örfá þeirra sem tekið hafa námslán hjá Menntasjóði námsmanna hafa hafið afborganir af lánum sínum. Því er ljóst að ekki eru til staðar marktæk gögn um greiðendur, en líkt og gefur auga leið snýr stór hluti laganna að þeim hópi. Áhrif þeirra breytinga sem gerðar voru á námslánakerfinu með tilkomu laga um Menntasjóð námsmanna eru því enn óljós.

Ætla má að eftir þrjú ár verði komin betri reynsla á kerfið og líkur eru á að ítarlegri upplýsingar um áhrif kerfisins muni koma í ljós á tímabilinu.

 

Ljóst er að íslenskir stúdentar búa enn, í grundvallaratriðum, við ófullnægjandi stuðningskerfi. LÍS leggur áherslu á að endurskoðun þessi verði nýtt til hins ítrasta og að kerfið í heild sinni verði tekið til ítarlegrar skoðunar með jafnrétti til náms í fyrirrúmi. LÍS krefst þess að stjórnvöld geri þarfar breytingar til þess að sjóðurinn uppfylli lögbundið hlutverk sitt sem félagslegur jöfnunarsjóður. 

Ljóst er að takmörkuð gögn eru til staðar um þetta nýja kerfi og greiningar á áhrifum þeirra breytinga sem það hafði í för með sér eru af skornum skammti. Því er sérstaklega mikilvægt að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið leggi ítarlegt mat á stöðu mála og gefi sér góðan tíma í þá greiningarvinnu sem endurskoðun sem þessi þarf að grundvallast á. Að mati LÍS er einnig nauðsynlegt að taka til skoðunar stofnunina sjálfa, þ.e. Menntasjóð námsmanna, og þá verkferla sem unnið er eftir þar. 

Hér að neðan setur LÍS fram þá þætti sem að mati stúdenta þarf sérstaklega að greina í aðdraganda endurskoðunarinnar.

  • Við gerð hvatakerfis er mikilvægt að unnin verður greining á þeim ástæðum sem búa að baki löngum námstíma stúdenta hérlendis. Greiningin skal taka tillit til þátta líkt og framfærslulána og hárrar atvinnuþátttöku stúdenta.

    Hefur markmiði kerfisins um að koma fólki fyrr út á vinnumarkað/hærra hlutfall stúdenta klári nám sitt á tilskildum tíma verið náð?

    Stóðst kostnaðarmat á nýja kerfinu og hver hefur þjóðhagslegur ábati þess verið?

  • Greina þarf hvaða hópi núverandi hvata- og styrkjakerfi gagnast og skoða í kjölfarið hvort hlutverk sjóðsins sem félagslegs jöfnunarsjóðs verði betur uppfyllt með öðrum útfærslum.

    Stúdentar óska eftir tölfræði yfir lántaka sem hafa uppfyllt skilyrði laganna um að klára nám á réttum tíma og hljóta þar með niðurfellingu, sundurliðað eftir fjölskyldu- og búsetuaðstæðum, þar á meðal hvort búseta sé erlendis, í þeirri von að það varpi ljósi á hvaða hópum nýja kerfið gagnast helst auk þess á hvaða hópum þarf að styðja betur við.

  • Nauðsynlegt er að samspil frítekjumarksins og grunnframfærslunnar sé vandlega skoðað. Fara verður í ítarlega greiningu á hækkun, afnámi, þrepaskiptingu sem og öðrum breytingum sem hægt er að gera á frítekjumarkinu (sbr. kafli 3.3.)

  • LÍS kallar eftir því að staða kvenna verði sérstaklega könnuð samhliða endurskoðuninni og að lagt verði mat á kynjaáhrif kerfisins í núverandi mynd. Einnig skal staða annarra hópa sem ætla má að muni finna fyrir hærri greiðslubyrði könnuð.

  • LÍS kallar einnig eftir upplýsingum um hvernig 0,6-0,8% afföll eru metin og hversu líklegt er að þær forsendur og það mat standist.

    Hvernig er niðurgreiðsla vaxta fjármögnuð ef þeir fara yfir vaxtaþakið?

  • Að lokum þarf að leggjast í allsherjargreiningu á því hvernig lántakar koma út úr nýju lögunum. Leggjast þarf í heildrænan samanburð á gamla kerfinu og því nýja miðað við breyttar forsendur.