Stuðningur við nemendur er forsenda framþróunar

Herferð LÍS og BHM um hlutverk og stöðu Menntasjóðs námsmanna er nú hafin og ber yfirskriftina: Mennt var máttur. Tilgangur herferðarinnar er að vekja athygli á vanköntum námslánakerfisins og afleiðingum þeirra, fyrir stúdenta, háskólamenntaða, íslenskan vinnumarkað og samfélagið í heild. Markmiðið er að þrýsta á stjórnvöld að gera nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi námslána.

Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að tryggja stúdentum tækifæri til náms óháð efnahag og félagslegri stöðu. Á síðastliðnum árum hefur fjöldi lántaka hjá Menntasjóðnum þó hríðfallið. Skólaárið 2009-2010 tóku 12.393 háskólanemar námslán en tíu árum síðar voru þeir orðnir 4.979.

Í þessu samhengi er vert að nefna að hér á landi hafa töluvert færri lokið háskólamenntun en í samanburðarlöndum okkar. Í nýútgefinni skýrslu frá OECD kemur fram að 41,9% ungs fólks á aldrinum 25-34 ára hafa aflað sér háskólamenntunar á Íslandi, samanborið við 49% í Danmörku, 49,2% í Svíþjóð og 55% í Noregi. Niðurstöðurnar verður að taka alvarlega, sér í lagi í samhengi við sílækkandi aðsókn í Menntasjóð námsmanna.

Samanburðurinn knýr fram spurningar um hvaða hópar það eru sem mennta sig og enn mikilvægara: er menntun á boðstólnum fyrir öll? Og hvaða afleiðingar mun dræm menntaaðsókn hafa á vinnumarkað framtíðarinnar? Stúdentar hafa bent á vankanta námslánakerfisins í mörg ár og nú bendir allt til að gallar námslánakerfisins bitni ekki aðeins á háskólanemum heldur á íslenskum vinnumarkaði og það er kominn tími til að stjórnvöld hlusti.

Markmið stjórnvalda um að fjölga háskólanemum og að gera hugvitið að stærstu útflutningsgrein þjóðarinnar verður ekki náð nema með bættum stuðningi við nemendur. Viðunandi stuðningur við stúdenta er forsenda fyrir framþróun og fjölbreyttum vinnumarkaði.

Áður en nám verður aðeins fyrir útvalda

Árum saman hefur stúdentahreyfingin barist fyrir fullnægjandi framfærslulánum. Lánsupphæðir eru ákveðnar í úthlutunarreglum hvers árs og fellur það í skaut ráðherra háskólamála að ákveða þær. Það er ekkert í lögunum sem skyldar ráðherra til að hækka upphæðir námslána á milli ára og því þarf að breyta.

Í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2022-2023 er kveðið á um að framfærsla fyrir einstakling á leigumarkaði sé 237.214 krónur. Við endurtökum: 237.214 krónur.

Samkvæmt lögum um Menntasjóð námsmanna skal miða við að framfærslulán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði á Íslandi meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns og búsetu. Það ætti að vera öllum ljóst að 237.214 krónur duga skammt fyrir leigu, mat og öðru hefðbundnu uppihaldi. Þá er mikilvægt að benda á að í skýrslu Stúdentaráðs Háskóla Íslands um stúdenta á húsnæðismarkaði kemur fram að á árunum 2017 til 2021 hafi vísitala leiguverðs hækkað um 41% á meðan húsnæðisliður námslána hækkaði aðeins um 11%. Frá 2021 hefur húsnæðisliður námslána haldið áfram að lækka að raunvirði.

Þá er ónefnd sú staða að ekki eru allir stúdentar eru svo heppnir að fá allar 237.214 krónurnar. Þau sem af einhverjum ástæðum uppfylla ekki lágmarksnámsframvindukröfur og geta ekki fengið undanþágur á stífum reglum fá ekkert og eru því óneitanlega í viðkvæmri stöðu. Þau sem fá undanþágu t.d. vegna veikinda fá aftur á móti námslán en einungis 75% af framfærslunni þ.e. 177.910 krónur á mánuði.

Markmið námslánakerfisins er að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms, án tillits til efnahags eða stöðu að öðru leyti. Það er þó nokkuð ljóst að því markmiði verður ekki náð með núverandi fyrirkomulagi. Á meðan framfærslulánin eru jafn lág og raun ber vitni breikkar bilið á milli þeirra sem hafa fjárhagslegt bakland og þeirra sem hafa það ekki. Við viljum ekki búa í samfélagi þar sem bakland er nauðsynlegt til þess að stunda nám. Háskólanám á að vera aðgengilegt öllum óháð efnahag og námslánakerfið ætti að tryggja það.

Námslánakerfið í núverandi mynd stuðlar að stéttaskiptingu

Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er samkvæmt lögum að vera félagslegur jöfnunarsjóður. Gera þarf töluverðar breytingar á námslánakerfinu svo að því hlutverki sé raunverulega sinnt.

Lág framfærsla og stirðar reglur Menntasjóðsins skerða aðgengi að menntun og er ein helsta ástæða þess að íslenskir stúdentar vinna mikið með námi. Atvinnuþátttaka íslenskra stúdenta er með því hæsta sem þekkist í samanburðarlöndum en í Eurostudent könnuninni kemur fram að 71% íslenskra stúdenta vinna með námi, þar af 29% í yfir 20 tíma á viku. Auk þess kemur fram að 72% þeirra sem vinna fullyrða að án launaðrar vinnu hafi þau ekki efni á því að vera í námi og skorar ekkert evrópulandanna hærra á þeim skal.

Í sömu könnun kemur fram að 25% stúdenta eiga í erfiðleikum með að sinna námi vegna vinnu. Þegar litið er til þeirra sem vinna 20 tíma eða fleiri eiga rúmlega 50% í erfiðleikum með að sinna námi vegna vinnu. Það er því ljóst að skortur á stuðningi við námsmenn hefur áhrif á námsframvindu og þau sem neyðast til þess að vinna með námi eru því í dræmari stöðu til þess að sinna og þar með ljúka námi en fjárhagserfiðleikar eru þriðja algengasta ástæða þess að íslenskir stúdentar gerðu hlé á námi sínu.

Þá er ónefnd sú ójafna staða sem stúdentar eru í til þess að hljóta námsstyrk stjórnvalda. Í lögum um Menntasjóðinn er kveðið á um að ljúki lántaki námi á tilteknum tíma ávinnur hann sér námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námslánsins. Þetta skilyrði í sambland við ófullnægjandi framfærslu og stirðar lántökureglur hefur skapað þá stöðu að þau sem hafa fjárhagslegt bakland eiga þess betur kost að ljúka námi á tilsettum tíma og þar með hljóta námsstyrk. Því höfum við ekki einungis þá stöðu uppi að þau sem eiga bakland eiga auðveldara með að afla sér menntunar yfirhöfuð heldur eiga þau auðveldara með að hljóta niðurgreiðslu stjórnvalda. Með þessum hætti stuðlar námslánakerfið að aukinni stéttskiptingu.

Mikilvægt er að við styrkveitingu sé horft sé til jafnréttissjónarmiða í víðum skilningi. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um Menntasjóð námsmanna kemur fram að við val á aðferð við styrkveitingu hafi verið horft til norska lánasjóðsins. Stúdentar hafa bent á að enn þurfi að gera töluverðar breytingar á lögum um Menntasjóðinn svo hið íslenska kerfi standist samanburð við hið norska. Í Noregi hljóta lántakar 25% niðurfellingu á höfuðstól láns síns í lok hverrar annar, auk þess sem að lántakar eiga rétt á 15% niðurfellingu til viðbótar við námslok, óháð því hvort þeir ljúki námi á réttum tíma eða ekki. Þetta fyrirkomulag kemur töluvert betur til móts við mismunandi aðstæður stúdenta.

Sögulega háir vextir

Vaxtakjör á námslánum hér á landi hafa stórversnað með innleiðingu laga um Menntasjóð námsmanna. Lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna voru verðtryggð og báru 1% fasta vexti þar til nýverið, þegar þeir voru lækkaðir niður í 0,4%. 1% vextirnir voru settir á árið 1992 en þar áður höfðu þeir verið 0%. Í dag eru vextir á námslánum frá Menntasjóði námsmanna 4% á verðtryggðum lánum og 9% á óverðtryggðum.

Þess má geta að á sama tíma eru breytilegir vextir húsnæðislána á bilinu 2,25-3,30% (verðtryggt) og 8,90-11,0% (óverðtryggt). Því er hægt að fá húsnæðislán á hagstæðari kjörum en námslán og því mætti segja að ríkið metur fjárfestingu í menntun minna en bankar meta fjárfestingu í húsnæði.

Vextir námslána eru breytilegir og byggja á þeim vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði að viðbættu föstu vaxtaálagi sem skal ákveðið í úthlutunarreglum hvers árs. Vaxtaálagið skal taka mið af væntum afföllum af endurgreiðslu lána. Með þessu fyrirkomulagi hefur allri áhættu vegna affalla af lánum sjóðsins velt yfir á greiðendur, auk þess sem breytilegum vöxtum fylgir aukin óvissa um endurgreiðslubyrði og lánakjör.

Skýring þessarar vafasömu þróunar er m.a. sú að markmið stjórnvalda er að útlánahluti sjóðsins standi undir sér. Svo virðist sem það hafi gleymst að um er að ræða lán sem veitt eru í þeim tilgangi að fjárfesta í menntun þjóðarinnar. Slík fjárfesting í þágu íslensks samfélags og atvinnulífs ætti ekki að vera takmörkuð af sjálfbærnihugsjón útlánahluta sjóðsins, heldur vera sniðin að þörfum lántaka svo sem flestir eigi þess kost að sækja sér menntun við hæfi. Þar að auki ríma markmið um sjálfbærni illa við þau jafnréttissjónarmið sem sjóðurinn er byggður á og grefur raunar undan þeim. Mikilvægt er að stjórnvöld muni að fjárfesting í námi er ábatasöm fyrir samfélagið allt og fjárframlög ríkisins þurfa að aukast til þess að þau endurspegli þá staðreynd.

Eru námslán stuðningur eða gildra?

Í lögum og úthlutunarreglum Menntasjóð námsmanna má finna súpu af furðulegum skilyrðum og afleiðingum námslána. Til skýringar skal hér tekið fram að Alþingi samþykkir lög um Menntasjóðinn en ráðherra háskólamála setur úthlutunarreglur árlega.

Hér skal komið inn á nokkra þætti:

Lágmarksnámfsframvinda:

Samkvæmt lögum þarf lántaki að uppfylla kröfur um lágmarksnámsframvindu til þess að eiga rétt á námsláni. Í lögunum segir að kröfur um lágmarksnámsframvindu mega ekki vera meiri en 44 ECTS-einingar eða ígildi þeirra á ári, en að öðru leyti er það sett í hendur ráðherra að ákvarða hvað telst vera full námsframvinda og hvað telst vera lágmarksnámsframvinda. Í úthlutunarreglum 2023-2024 er gerð krafa um að ljúka þurfi 22 ECTS-einingum á önn til að eiga rétt á láni frá Menntasjóði námsmanna og fullt nám er skilgreint sem 30 ECTS-einingar á önn. Stúdentar á Íslandi þurfa því að vera í að minnsta kosti um 75% námi til þess að eiga yfir höfuð rétt á námslánum. Ef stúdent reiknar með að ljúka 22 einingum en uppfyllir svo ekki lágmarksnámframvinduna þarf sá hinn sami að greiða lánin strax til baka. Mörg námskeið eru fleiri en 8 ECTS-einingar og þarf því lítið út af að bregða til þess að stúdent missi allan rétt sinn á námslánum. Mikilvægt er að lækka kröfur um lágmarksnámsframvindu í lögum. Sömuleiðis er brýnt að bæta það fyrirkomulag að þau sem þurfa að notast við undanþágur geta aldrei fengið lánað fyrir meiru en 22 einingum og fá því einungis 75% af grunnframfærslunni. Mikilvægt er að lækka kröfur um lágmarksnámsframvindu en 34% íslenskra stúdenta telja fjárhagsstöðu sína annað hvort alvarlega eða mjög alvarlega, til samanburðar er meðaltalið 26% í Evrópu.

Frítekjumark

Nauðsynlegt er að samspil frítekjumarksins og grunnframfærslunnar sé vandlega skoðað og fundin sé leið til að koma í veg fyrir að frítekjumarkið hamli því að stúdentar nái eðlilegri framfærslu. Fyrirkomulag frítekjumarksins í núverandi mynd skapar vítahring þar sem stúdentar neyðast til að vinna með námi til að geta framfleytt sér en við það skerðist námslánið svo þeir þurfa að vinna enn meira. Þá ber að hafa í huga að námslán eru (að jafnaði) veitt fyrir 9 mánuðum ársins en stúdentar þurfa að afla tekna til að standa undir hinum mánuðunum. Kanna þarf mismunandi útfærslu á frítekjumarki m.a. á þá leið að sjálfsaflatekjur stúdenta þær vikur sem eru utan annar sé undanskyldar frítekjumarki. Sömuleiðis er mikilvægt að skoða hvernig breytingar á frítekjumarki geti stuðlað að aukinni menntun hjá einstaklingum á vinnumarkaði.

Aldursmark á tekjutengingu

Lántakar menntasjóðsins eiga þess kost að tekjutengja afborganir sínar af námslánum að því gefnu að þau útskrifast fyrir 35 ára aldur. Þetta er mikilvægt atriði enda margar háskólastéttir á lágum launum. Sömuleiðis er algengt að laun hækki með starfsaldri og mega endurgreiðslur námslána ekki vera hamlandi þegar fólk er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Afnema þarf aldursmark á tekjutengingu afborgana en í þessu er fólgin mismunun gagnvart þeim sem ljúka námi síðar á lífsleiðinni. Yfirlýst markmið sjóðsins er að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti. Ljóst er að ákvæðið takmarkar aðgengi að námi og grefur undan þeim félagslegu sjónarmiðum sem sjóðurinn byggir á. Vakin hefur verið sérstök athygli á kynjaáhrifum tekjutengdra afborgana en konur eru líklegri til þess að fara í nám seinna á ævinni. Þess má einnig geta að samkvæmt nýjustu launarannsókn Hagstofu Íslands var óleiðréttur launamunur karla og kvenna 10,2% körlum í hag árið 2021. Þá voru konur með 25,5% lægri atvinnutekjur en karlar árið 2019. Af þessu má vera ljóst að ákvæðið felur ekki aðeins í sér mismunun á grundvelli aldurs heldur einnig á grundvelli kyns.

Gjaldfelling

Samkvæmt lögum um Menntasjóð námsmanna skulu námslán almennt vera að fullu greidd á því ári sem lántaki nær 65 ára aldri. Í sömu grein kemur fram að hafi þau ekki verið að fullu greidd á því ári sem lántaki nær 66 ára aldri hefur sjóðstjórn heimild til að gjaldfella lánin. Ljóst er að um íþyngjandi aðgerð er að ræða sem er varhugavert þar sem líkur eru á að stór hluti þessa hóps hafi þurft á frestun á afborgunum að halda vegna aðstæðna sinna. Með öðrum orðum eru líkur á að stór hluti þess hóps sem heimildin nær til hafi ekki fjárhagslegt svigrúm til að standa straum af gjaldfellingu eftirstöðva lána sinna. Vert er að setja spurningamerki við það hvort að heimildin sé í samræmi við þau jafnréttissjónarmið sem sjóðurinn byggir á.

Ábyrgðarmenn

Háskólanám er eitt helsta afl til félagslegs hreyfanleika og ættu stjórnvöld því að greiða leið þeirra eignaminni og þeirra sem skortir bakland að háskólanámi í stað þess að skapa þeim hindranir. Ábyrgðarmannakerfi námslána hefur verið deiluefni í mörg ár og þrátt fyrir að kerfið hafi breyst til hins betra eru enn leifar af gamla ábyrgðarmannakerfinu. Samkvæmt lögum um Menntasjóð námsmanna eru þau sem ekki teljast tryggir lántakar krafin um ábyrgðir sem Menntasjóðurinn telur viðunandi, svo sem fasteignaveð eða yfirlýsing ábyrgðarmanns. Ljóst er að ábyrgðarkerfið hamlar getu þeirra eignaminni og annarra sem eiga ekki tryggt bakland, til þess að stunda háskólanám.

Án námslánakerfis mun fjöldi námsgreina leggjast af

Það er ekki sjálfgefið að geta stundað nám og hvað þá að ljúka því. Námslánakerfið á að vera stuðningsnetið sem kemur stúdentum í gegnum háskólanám, stuðningsnet sem gerir þeim kleift að leggja stund á nám sitt og gefa að því loknu til baka til samfélagsins með nýtingu þeirrar reynslu og þekkingar sem aflað var í náminu. Þetta stuðningsnet er lykilforsenda þess að háskólanám sé aðgengilegt.

Nú þegar lántökum hjá Menntasjóði námsmanna fer sífækkandi þurfa stjórnvöld að staldra við og velta fyrir sér hvernig framtíð bíður okkar án stuðnings við námsmenn. Nú þegar erum við að mennta töluvert færri en nágrannalöndin okkar og samkvæmt nýjust tölum Hagstofunnar fækkar háskólanemum. Ef fram fer sem horfir geta ákveðnar greinar í háskólum verið í útrýmingarhættu og á sýningunni Mennt var máttur má segja að stigið sé inn í þá framtíð.

Ávinningur einstaklinga af háskólanámi er mjög lítill á Íslandi í Evrópskum samanburði. og langminnstur í samanburði Eurostat, aðeins um 8%. Þegar borinn er saman munur á atvinnutekjum háskólamenntaðra og framhaldsskólamenntaðra eftir skatt er munurinn um 34%. Tekjur háskólamenntaðra karla eru rúmlega 55% hærri en meðalatvinnutekjur allra framhaldsskólamenntaðra. Tekjur háskólamenntaðra kvenna eru aftur á móti 19% hærri en meðaltekjur allra framhaldsskólamenntaðra. Þessi litli ávinningur vekur sérstakar áhyggjur nú þegar vextir á námslánum eru orðnir eins háir og raun ber vitni.

Hvað er til ráða?

Stjórnvöld eru í dauðafæri til að laga námslánakerfið því nú fer fram endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um Menntasjóðinn skal fara fram endurskoðun á lögunum innan þriggja ára frá því þau komu til framkvæmda og niðurstöður endurskoðunarinnar kynntar eigi síðar en á haustþingi 2023. Í ljósi þess að ekki er kveðið á um reglulega endurskoðun þessara laga er ljóst að endurskoðun þessi veitir gríðarlega mikilvægt tækifæri til að gera nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi námslána hér á landi.

Klukkan tifar en haustþing er þegar hafið og lítið hefur verið rætt við hagaðila um endurskoðunina. Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir stúdentum tækifæri til náms, óháð efnahagi eða stöðu að öðru leiti. Þörf er á mikilli vinnu og talsverðum breytingum á lögum sjóðsins til þess að þetta hlutverk sé uppfyllt. Því þarf málið að vera í algjörum forgangi í ráðuneyti háskólamála það sem eftir lifir hausts.