Vextir námslána aldrei verið hærri

Samkvæmt 17. og 18. gr. laga um Menntasjóð námsmanna eru vextir námslána breytilegir og byggja á þeim vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði að viðbættu föstu vaxtaálagi sem skal ákveðið í úthlutunarreglum hvers árs. Vaxtaálagið skal taka mið af væntum afföllum af endurgreiðslu lána. Þó er 4% vaxtaþak á verðtryggðum lánum og 9% á óverðtryggðum lánum. Ljóst er að með innleiðingu breytilegra vaxta fylgdi aukin áhætta fyrir lántaka og óvissa um endurgreiðslubyrði og lánakjör. 

Samkvæmt minnisblaði sem Summa ehf. vann fyrir Menntamálaráðuneytið við gerð frumvarpsins ætti nýja námslánakerfið að skila skatttekjum og sparnaði í skólakerfinu upp á einn til þrjá milljarða á ári hverju. LÍS tekur undir kröfu Stúdentaráðs Háskóla Íslands um að það fjármagn skuli renna aftur til sjóðsins. Þá fjárhæð skuli nota til að greiða niður vexti af námslánum þannig að lántakar beri ekki einir byrði af markaðsáhættu.

 
  • Í 1. mgr. 17. gr. og 1. mgr. 18.gr. í lögum um Menntasjóð námsmanna er kveðið á um að vaxtakjör sjóðsins innihaldi vaxtaálag vegna væntra affalla af endurgreiðslum námslána. Þannig er greiðendum gert að bera alla áhættu vegna affalla af lánum sjóðsins. Stúdentar krefjast þess að ríkið beri þá áhættu sem tilkomin er vegna affalla og skal ákvæði þess efnis bætt við 3. mrg. 34. gr. þar sem kveðið er á um fjárframlög frá ríkinu.

  • Stúdentar krefjast þess að vaxtaþak bæði verðtryggðra og óverðtryggða námslána frá Menntasjóði námsmanna verði lækkað. Með því að lækka vaxtaþakið á ný er komið í veg fyrir að markaðsáhætta og áhætta vegna affalla falli alfarið á lántaka. Þannig er dregið úr óvissu fyrir lántaka sem stuðlar að því að markmiði sjóðsins um að veita aðgengi að námi án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti sé betur uppfyllt .

  • Í Október voru vextir á verðtryggðum lánum frá Menntasjóði námsmanna 2,49% og þá mældist verðbólga 9,4% sem þýðir að raunvextir af verðtryggðum lánum frá Menntasjóði námsmanna voru 11,9%. Vextir á óverðtryggðum lánum frá sjóðnum voru aftur á móti 7,13%. LÍS krefst þess að við endurskoðunina verði sérstaklega athugað hvernig hægt sé að bregðast við aðstæðum sem þessum, enda er ekki tækt að vaxtabyrði stúdenta sé eins há og raun ber vitni, það skerðir ekki aðeins aðgengi að námi, heldur dregur það einnig úr jafnréttisáhrifum sjóðsins.

  • Stúdentar krefjast þess að horfið verði frá sjónarmiðum um sjálfbærni sjóðsins, enda beri slík sjónarmið þess ekki merki að stjórnvöld líti á nám og stúdenta sem fjárfestingu fyrir samfélagið allt. Hér er vísað til þess markmiðs sjóðsins að útlán hans standi undir sér að undanskildum 30% styrk til lántaka sem ljúka námi á réttum tíma og greiðslu barnastyrks, auk ívilnana.

    Ítreka ber að um er að ræða lán sem veitt eru í þeim tilgangi að þjóðin mennti sig. Lánin bera vexti, kunna að vera verðtryggð og eru endurgreidd af lántökum. Slík fjárfesting í þágu íslensks samfélags og atvinnulífs ætti ekki að vera takmörkuð af sjálfbærnihugsjón útlánahluta sjóðsins, heldur vera sniðin að þörfum lántaka svo sem flestir eigi þess kost að sækja sér menntun við hæfi. Þar að auki ríma markmið um sjálfbærni illa við þau jafnréttissjónarmið sem sjóðurinn er byggður á og grefur raunar undan þeim. Mikilvægt er að stjórnvöld muni að fjárfesting í námi er ábatasöm fyrir samfélagið allt og fjárframlög ríkisins þurfa að aukast til þess að þau endurspegli þá staðreynd.