Umsögn um frumvarp um breytingar á Menntasjóði námsmanna

LÍS skilaði inn umsögn til Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020. í ljósi þess að frumvarpið hefur ekki tekið breytingum frá því það var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda vísuðu samtökin að öllu leyti til fyrri umsagnar sem gerð var í samstarfi LÍS og BHM. Þá umsögn má finna hér.

Þá lögðu stúdentar til breytingartillögur á frumvarpinu sem þingmenn eru hvattir til að vinna áfram í þinglegri meðferð málsins. Tillögurnar eru eftirfarandi:

  1. Námsstyrkir að norskri fyrirmynd. Horfa ætti til styrkjafyrirkomulagsins í Noregi; 25% niðurfellingar á höfuðstól eftir hverja önn og 15% niðurfellingar við námslok. Einnig ætti að hverfa frá tímamörkum námssstyrkja í anda norska kerfisins enda verður krafa um námsframvindu seint slitin í sundur frá hárri atvinnuþátttöku námsmanna.

  2. Sanngjörn framfærslulán. Það er grundvallaratriði að framfærsla námsmanna sé byggð á traustum grunni og dugi til framfærslu og því þarf að festa útfærslu hennar í lög. Þá þarf að lækka lágmarksnámsframvindukröfu í lögum og taka upp norska útfærslu á námsframvinduviðmiðum en þar fá stúdentar lán fyrir einingum sem þeir þreyta óháð því hvort þeir standist námsmat.

  3. Vextir. Stúdentar ítreka fyrri kröfu um að vaxtaþak námslána lækki og að vaxtaálag vegna væntra affalla verði afnumið enda ættu stúdentar ekki að bera alla áhættu á afföllum sjóðsins.

Previous
Previous

Opið fyrir framboð í embætti varaforseta LÍS 2024-2025

Next
Next

Evrópska ungmennavikan