Opinn fundur í HA 10. október vegna #kjóstumenntun

FSHA, Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri í samstarfi við LÍS stóð fyrir opnum fundi með fulltrúum stjórnmálaflokka, þann 10. október s.l. í hátíðarsal Háskólans á Akureyri. Tilefni fundarins var að vekja athygli á stöðu háskólanna á Íslandi og opna umræðu um málefnið milli stúdenta og frambjóðenda til Alþingis.

Í pallborði sátu Hildur Betty Kristjánsdóttir fyrir Viðreisn, Hrafndís Bára Einarsdóttir fyrir Pírata, Hörður Finnbogason fyrir Bjarta framtíð, Steingrímur J. Sigfússon fyrir Vinstrihreyfinguna - Grænt framboð, Logi Einarsson fyrir Samfylkinguna, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Hjálmar Bogi Hafliðason fyrir Framsóknarflokkinn og Karl Liljendal Hólmgeirsson fyrir Miðflokkinn.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA opnaði fundinn þar sem hann undirstrikaði hvaða áhrif undirfjármögnun háskólanna hefði. Þar vísaði hann sérstaklega í þjónustustig, nýjungar í kennslu og aðgengi að námi. Lokaorð Eyjólfs lýsa ástandi háskólans ansi vel, „starfsfólk skólans gefur sig 150%. Það vinnur og kennir meira en góðu hófi gegnir og það hefur áhrif á rannsóknir. Það er sá þáttur sem veldur mér sem rektor, mestum áhyggjum.“

Fundarstjórar lögðu fyrir tvær undirbúnar spurningar, fyrir hönd LÍS, áður en opnað var fyrir spurningar úr sal. Fyrri spurningin snéri að stefnu flokkanna í menntamálum, með áherslu á háskólanna og sú síðari snérist um LÍN, Lánasjóð íslenskra námsmanna. Bent var á þá staðreynd að gjarnan væri vísað til Norrænnar fyrirmyndar þegar spurt væri hvernig stjórnmálamenn sæju fyrir sér að breyta LÍN. Staðreyndin er sú að kerfin eru mjög ólík á milli Norðurlandanna og því er mikilvægt að vita, til hvaða fyrirmyndar sé horft. Enginn fulltrúanna gat tilgreint til hvaða fyrirmyndar væri horft, en fulltrúarnir voru þó allir þeirrar skoðunar að LÍN þarfnaðist breytinga, þar sem horft væri til styrkjakerfis af einhverju tagi, stúdentum til hagsbóta.

Fundurinn heppnaðist einstaklega vel, þétt var setið í hátíðarsal skólans og tóku fundargestir þátt í umræðum við frambjóðendur. Sérstaklega var ánægjulegt að heyra viljayfirlýsingar frambjóðenda, þess efnis að fjármagna þyrfti háskólakerfið betur og samstaða var um vilja þeirra allra, til þess að bæta kerfið og gera betur. Það er því von okkar að sú verði raunin, þegar ný ríkisstjórn tekur til starfa.

Previous
Previous

European Students’ Convention í Cardiff, Wales: “Securing our Future”

Next
Next

LÍS og mennta- og menningarmálaráðuneyti gera með sér styrktarsamning