Fjöldatakmarkanir í starfsréttindanám í iðjuþjálfunarfræði

Á landsþingi LÍS fyrr í mánuðinum var eftirfarandi ályktun einróma samþykkt um fjöldatakmarkanir í starfsréttindanám í iðjuþjálfunarfræði. Stúdentar hafa um langa hríð bent á að háskólakerfið sé vanfjármagnað og gagnrýna stúdentar harðlega að leitað sé til fjöldatakmarkana sem lausnar við fjárskorti. Ályktunina má lesa hér sem og að neðan:

Háskólamenntun í raunverulegri hættu - Fjöldatakmarkanir í starfsréttindanám í iðjuþjálfunarfræði

Í haust stóðu Landssamtök íslenskra stúdenta auk BHM fyrir herferðinni Mennt var máttur. Tilgangur herferðarinnar var að sýna fram á þá dystópísku mynd sem gæti blasað við íslensku samfélagi ef ekki verður gerð breyting á fjármagni til háskólakerfisins. Sú mynd gæti raungerst og herferðin sannspárri en LÍS hefði viljað. Meðal þeirra stétta sem herferðin snerti á voru mikilvægar heilbrigðisstéttir sem alvarlegt væri fyrir íslenskt samfélag ef ekki yrðu menntaðar hérlendis.

Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri óskaði eftir því að háskólaráð Háskólans á Akureyri fjallaði um fjöldatakmarkanir í starfsréttindanámi í iðjuþjálfunarfræði og liggur fyrir ráðinu að taka ákvörðun um það. Ákvörðun iðjuþjálfunarfræðideildar er tekin vegna þess að deildin er vanfjármögnuð og sér ekki fram á að geta tekið við fleiri stúdentum. Stúdentar hafa um langa hríð bent á að háskólakerfið sé vanfjármagnað og gagnrýna stúdentar harðlega að leitað sé til fjöldatakmarkana sem lausnar við fjárskorti.

Deildin er sú eina hérlendis sem býður upp á nám í iðjuþjálfunarfræði. Greinin er fremur ung hérlendis en hefur verið í örum vexti síðastliðin ár og er mikill áhugi á náminu. Einnig er töluverður skortur á iðjuþjálfurum í íslensku samfélagi innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins og því mikilvægt að útskrifa fleiri iðjuþjálfa hérlendis. Tilgangur háskólamenntunar er að skapa þekkingu og fjölga tækifærum með það að leiðarljósi að gera samfélagið öflugra og tryggja fjölbreytta þekkingu.

Það að þurfa að setja fjöldatakmarkanir í deildina á þessum tímapunkti vegna fjárskorts er sorglegt, ekki einungis fyrir stúdenta deildarinnar, starfsmenn og iðjuþjálfa heldur einnig fyrir stúdenta í heild því ákvörðunin varpar ljósi á það hvar háskólakerfið er statt í raun og veru.

Previous
Previous

Lífskjarakönnun stúdenta

Next
Next

Stúdentar ræða tilgang háskólamenntunar